Geitur

Íslenska landnámsgeitin kom hingað með norrænum víkingum um 874.  Þær hafa þolað margt gegnum aldirnar og í tvígang hefur stofninn farið töluvert undir 100 dýr.  Síðustu ár hefur þeim samt farið fjölgandi og 2017 voru þær um 1100 en  eru engu að síður enn í útrýmingarhættu.   Íslenska landnámsgeitin er dugleg en ljúf og skemmtileg, hana er auðvelt að gera mannvana, þær geta verið sérvitrar en það gerir þær bara skemmtilegri. Við fengum geiturnar okkar á Stórhól haustið 2012,  7 huðnur og 3 hafra. Síðan þá hefur stofninn vaxið og dafnað ot telur oftast í kring um 30 geitur.   Við nýtum fiðuna, skinnin og kjötið.  Geitakjöt er mjög gott og heilsusamlegt, próteinríkt og fitusnautt.  Við vinnum geitakjötið á ýmsan hátt, Huðnubiti er t.d. grafið geitalæri, Geitabiti er léttreykt og grafið geitafille og Kiðli er tvíreykt kiðlingalæri.  Við erum einnig með reykta kiðlingabógrúllu, reykta kiðlingarúllupylsu, geitahakk, kiðlingalæri, kiðlingakótilettur og kiðlingahryggi svo eitthvað sé nefnt.  Við látum spinna geitafiðuna í smáspunaverksmiðjunni Uppspuna, og fáum dásamlegt geitaband, sem við bjóðum til sölu í Rúnalist Gallerí.  Skinnin eru ýmist vélsútuð eða handsútuð, heil eða notuð í minni gripi eða skreytingar.

Geitur og myndir