Kindur

 

Íslenska sauðkindin hefur fætt okkur og klætt í gegnum aldirnar.  Hún hefur einstaka hæfileika í að lifa af við erfiðar aðstæður þó sem betur fer reyni minna á þá hæfileika í dag.  Kindurnar eru rúnar á haustin um leið og þær eru teknar á hús,  í nóvember - desember.  Mikilvægt er að rýja þær áður en þeim er gefið, þannig fáum við bestu ullargæðin.  Uppspuni smáspunaverksmiðja spinnur ullina fyrir okkur, í Sauðaband, Lambaband, og Bekraband.  Hver sauðalitur ber nafn kindarinnar sem ullin er af.  Í mars eru kindurnar rúnar aftur tekið svokallað snoð, til að fá góða og óhnökraða ull að hausti.  

Haustið 2022 sameinuðum við hjarðir.  Elsti sonurinn tók kindurnar okkar í sína hjörð en hann býr í Gilhaga í sömu sveit með tæplega 1000  fjár.  Við eigum okkar kindur hjá honum en leggjum til aðstoð  á álagstímum, sauðburði, göngum og réttum, rúningi og fleira.

Í hjörðum okkar er fjölbreytt litaúrval sem er spennandi til ullarvinnslu.  Þar má einnig finna ferhyrndar, ferukóllóttar, hyrndar og kollóttar kindur, forystu kindur, kindur með ARR of fleiri góð gen.