Kindur

 

Íslenska sauðkindin hefur fætt okkur og klætt í gegnum aldirnar.  Hún hefur einstaka hæfileika í að lifa af við erfiðar aðstæður þó sem betur fer reyni ekki á þá hæfileika í dag.  Við rýjum kindurnar okkar á haustin um leið og þær eru teknar á hús, áður en þeim er gefið, þannig fáum við mestu ullargæðin.  Bestu ullina notum við sjálf til að selja þvegna óunna eða vinna úr henni sjálf, band og mynjagripi.  Ullina sem við notum ekki seljum við til Ístex.  Í mars eru kindurnar rúnar aftur tekið svokallað snoð, til að fá góða og óhnökraða ull að hausti.  Sauðbuður hefst um mánaðamótin apríl-maí.  Þar sem við eigum ekki fjalllendi og jörðin er ekki stór fáum við að láta féð ganga á Gilhagadal yfir sumarið.  Þegar úthaginn er nógu gróin (einhvern tíman í júní) flytjum við ærnar og lömbin á fjall, upp á Gilhagadal.  smalað hefur verið til sumarslátrunar upp úr miðjum águst, en almenn smölun fer yfirleitt fram kringum aðra helgina í september.

Við eigum nokkrar kindur með ferhyrndan erfðavísi og einnig forystukindur.